Frumkvöðlafræði

– 2 ECTS eininga námskeið á háskólastigi – 

Umsókn

Tilgangur námskeiðsins er að nemendur öðlist skilning á eðli sprotafyrirtækja og starfsumhverfi þeirra fyrstu árin í rekstri. Farið verður yfir sögu frumkvöðlafræðinnar á 20. öld, hvað reki fyrirtæki til stöðugra breytinga og frumkvöðla til að stofna sprotafyrirtæki, hvernig fjórða iðnbyltingin hefur áhrif á þessar breytingar, hvað beri að varast við stofnun sprotafyrirtækja og hvaða greiningartól gagnist við slíka greiningarvinnu. Þá verður farið yfir uppsetningu á viðskiptamódeli, myndun teymis og fjármögnunarmöguleika sprotafyrirtækja, kosti þeirra og galla.

 

Við lok námskeiðs eiga nemendur að .ekkja það ferli sem þarf að fara í gegnum ef hugmynd að sprotafyrirtæki kviknar og geta greint gæði hugmyndar að sprotafyrirtæki með helstu greiningartólum og þannig metið hvort raunveruleg þörf og markaðsglufa sé á markaði fyrir hugmyndina.

Nemendur læra einnig að þekkja grunnatriði við uppsetningu á viðskiptamódeli, fjármögnunarþörf og heppilegustu útfærslu fjármögnunar, gera áhættumat og setja upp útgönguáætlun (e. exit strategy).

Nemendur sem sækja þetta námskeið hjá Endurmenntun LBHÍ sækja sama námskeið og nemendur sem skráðir eru í BS nám við Landbúnaðarháskóla Íslands. Námið er metið til 2 ECTS eininga.

Námskeiðið er kennt á seinni haustönn sem hefst 17. október og lýkur 3. desember. Stundaskrá liggur ekki enn fyrir en verður birt hér um leið og hægt er.

Mætingaskylda er í vettvangsferð þar sem 3 til 4 öflug sprotafyrirtæki verða heimsótt í dagsferð til Reykjavíkur og nágrennis. Auk þess er skyldumæting í fyrirlestur gestafyrirlesara. 

Námsmat byggist að mestu leyti á hópverkefni sem nemendur vinna að í áfanganum um þeirra eigin sprotafyrirtæki. Það skiptist í lyfturæðu (2%), lokakynningu (24%) og viðskiptaáætlun (40%) fyrir fyrirtækið. Að auki vinna nemendur skýrslu úr efni gestafyrirlesara (5%), tilvikagreiningu (24%) og skýrslu úr námsferð (5%).

Kennari námskeiðsins er Helgi Eyleifur Þorvaldsson aðjúnkt og brautarstjóri í búfræði við Landbúnaðarháskóla Íslands. Helgi er búfræðingur og með BSc í búvísindum frá Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri en hefur auk þess lokið meistaragráðu í viðskiptastjórnun (MBA) með áherslu á frumkvöðlafræði og nýsköpun frá þýska háskólanum Hochschule für Wirtschaft und Recht (HWR) í Berlín.

 Tími: Kennt á seinni haustönn. Stundaskrá birt síðar.

Verð:  44.000 kr. 

Við minnum á að hægt er að sækja um styrk frá stéttarfélögum til að sækja námskeið eða nám –

Endurmenntun LbhÍ

Landbúnaðarháskóli Íslands býr yfir sterkum og góðum tengslum við atvinnulífið og landsbyggðina sem er jafnframt grunnur að góðri og öflugri endurmenntunardeild við skólann. Endurmenntun LbhÍ þjónar því flestum starfandi einstaklingum á sviði umhverfistengdra málefna í þjóðfélaginu.