Umsókn
Sjálfbært skipulag þéttbýlis er hagnýtt námskeið í skipulagsfræði sem kennt er á fyrri vorönn og er hluti af meistaranámi í skipulagsfræði á vegum Landbúnaðarháskóla Íslands (LBHÍ). Þeir sem sækja námskeiðið í gegnum Endurmenntun LBHÍ sitja sama námskeið og nemendur í skipulagsfræði.
Um er að ræða nýtt námskeið þar sem tekin fyrir nokkur af mikilvægustu sjálfbærnimarkmiðum Sameinuðu þjóðanna sem tengjast þróun byggðar. Á námskeiðinu er kannað hvernig innleiða megi þau í hagnýtu skipulagsverkefni og verður skoðað hvernig samgöngur, þéttleiki og ýmis einkenni byggðar, mótun almenningsrýma, tengingar milli svæða, félagslegir og samfélagslegir þættir, náttúrufar og aðrar staðbundnar aðstæður skapa forsendur fyrir mögulega þróun byggðar. Nemendur þjálfast í að afla og vinna með upplýsingar tengt áðurnefndum þáttum byggt á þekkingarstöðu samtímans og staðbundnum upplýsingum. Jafnframt verður mat lagt á hvernig mögulegar lausnir uppbyggingar gætu haft áhrif á gæði byggðar með sjálfbærnimarkmið og hagsmuni íbúa að leiðarljósi. Mismunandi hagsmunir verða kannaðir gegnum samráðsfund
sem nemendur undirbúa og halda á námskeiðinu.
Á námskeiðinu þjálfast nemendur í að beita færni og verkfærum síns fræðasviðs í þverfaglegu samtali hópsins við að nálgast mögulega skipulagskosti í hagnýtu tilviki. Að þessu sinni er það Þorlákshöfn sem verður fyrir valinu.
Miðað er við að nemendur byggi að miklu leiti á þeirri færni og þeim verkfærum sem þeir hafa þegar aflað í öðrum námskeiðum, í starfi og/eða innan annarra fræðasviða.
Æskilegar forkröfur eru BS/BA gráða í arkitektúr, landslagsarkitektúr, landfræði, verkfræði,
skipulagsfræði eða félags- og hugvísindum.
Námskeiðið er 7 vikna langt og fer fram í lotum þar sem skiptist á staðlotuvika og þriggja vikna fjarnámstímabil með styttri fyrirlestrum og verkefnavinnu undir leiðsögn kennara. Mætingarskylda er í alla skipulagða tíma í staðlotuvikum og fjarnámsvikum og lágmarksmæting 80%. Vægi skilaverkefna er 40%, vægi ritgerðar er 40% og þátttaka í samráðsfundi og gegnumgangi vegur 20%.
Stundaskrá og nánari upplýsingar má nálgast á kennsluvef LBHÍ:
UGLA LBHÍ
Nemendur sem sækja þetta námskeið hjá Endurmenntun LBHÍ sækja sama námskeið og nemendur sem skráðir eru í nám í skipulagsfræði við Landbúnaðarháskóla Íslands. Nemendur sem uppfylla öll skilyrði til próftöku verður gefinn kostur á að fá vottað einingamat í lok námskeiðs. Námskeiðið er á meistarastigi og metið til 6 ECTS eininga.
Kennarar: Harpa Stefánsdóttir, Astrid Lelarge og Anna Sigríður Jóhannsdóttir, auk ýmissa gestafyrirlesara.
Staðarlotur: Hjá LBHÍ á Keldnaholti í Reykjavík 11.-13. jan., 7.-8. feb., 16. feb., 15. mars og 19. apríl
Tími: Kennsla hefst fimmtudaginn 11. janúar og lýkur formlega 19. apríl með kynningu verkefna. Síðasta kennslustund er um miðjan mars.
Verð: 59.000 kr.
– Við vekjum athygli á að hægt er að sækja styrk hjá stéttarfélögum fyrir námskeiði og námi –
Endurmenntun LBHÍ
Landbúnaðarháskóli Íslands býr yfir sterkum og góðum tengslum við atvinnulífið og landsbyggðina sem er jafnframt grunnur að góðri og öflugri endurmenntunardeild við skólann.
Endurmenntun LBHÍ þjónar því flestum starfandi einstaklingum á sviði umhverfistengdra málefna í þjóðfélaginu.
Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Keldnaholt - 112 Reykjavík
Sími 433-5000
Kt. 411204-3590