Umsókn
Keppnisnám í Reiðmanninum er nýtt nám á vegum Endurmenntunar LBHÍ fyrir alla sem vilja öðlast aukna færni í að undirbúa bæði sjálfan sig og hestinn fyrir þátttöku í keppnum. Námið er einstaklingsmiðað og hentar jafnt þeim sem eru að stíga sín fyrstu spor í keppnisreiðmennsku sem og reynslumiklum keppendum sem vilja bæta árangur sinn í keppnum og þjálfa hestinn sinn í keppni.
Námskeiðið er opið öllum sem náð hafa 18 ára aldri og með góða reynslu af hestamennsku.
Ekki er skilyrði að hafa farið í gegnum nám í Reiðmanninum en ma. er tekið tillit til reynslu umsækjanda af hestamennsku/reiðmennsku, hvort viðkomandi hafi sótt nám í reiðmennsku og hver hestakostur er.
MARKMIÐ
Markmið námsins er að þátttakendur öðlist aukna færni í að undirbúa og þjálfa bæði sjálfan sig og hestinn fyrir þátttöku í keppnum og sýningum, sem og að öðlast færni í markvissri markmiðasetningu við þjálfun keppnishesta með áherslu á þær æfingar sem hafa hvað mest nytsamlegt gildi fyrir keppnisþjálfun.
Áhersla er lögð á að geta riðið hestinum í réttri líkamsbeitingu með léttleikandi samband til afkasta. Jafnframt er lögð áhersla á líkamsbeitingu, orkustig, söfnun, fjaðurmagn og rými hestsins. Á námskeiðinu öðlast þátttakendur einnig færni í að skynja andlegt jafnvægi, samstarfsvilja og einbeitingu
hestsins við mikið þjálfunarálag.
Námið er einstaklingsmiðað og er kennsla miðuð út frá markmiðum og getu hvers og eins.
UM NÁMIÐ
Námið er metið til 6 eininga á framhaldsskólastigi (fein). Einingagjöfin er háð því að nemendur hafi sótt
90% verklegra tíma í staðarnámi og standist námsmat. Að baki hverrar einingar er gert ráð fyrir
3 vinnudögum nemanda, hvort sem um er að ræða fyrirlestra, verklega tíma eða heimanám.
Námskeiðið er kennt á fjórum verklegum helgum, auk fjögurra eftirmiðdaga í miðri viku á tímabilinu janúar – apríl. Kennsla fer fram í einstaklings- og paratímum, einkakennslu í reiðhöll og úti á hringvelli eða skeiðbraut. Á eftirmiðdögum er kennt frá ca. kl. 15-20 og á laugardögum og sunnudögum frá ca. kl. 8-18.
Fyrstu helgina í náminu er gerð ítarleg úttekt á knapa og hesti. Eftir fyrstu helgi setur knapinn upp markmið annarinnar fyrir sig og hest sinn í samráði við reiðkennara.
Síðasta helgin í náminu er haldin í glæsilegri reiðhöll LBHÍ á Mið-Fossum í Borgarfirði þar sem allir þrír hóparnir koma saman og keppa á útivelli skólans. Á laugardeginum eru æfingar með reiðkennurum, pepp og fyrirlestur og á sunnudeginum er mót.
FYRIRLESTRAR Í BOÐI
Í náminu er boðið upp á fyrirlestra á Teams með fremstu sérfræðingum á sínu sviði:
– Fyrirlestur með íþróttadómara á vegum Hestadómarafélags Íslands (farið verður yfir löglegan búnað).
– Fyrirlestur með gæðingadómara á vegum Gæðingadómarafélags LH
– Fyrirlestur með áherslu á keppnisjárningar
– Fyrirlestur um hugarfar og stemning á mótsdegi
Auk þess verður lesefni aðgengilegt á kennsluvefnum skólans um fóðrun, umhirðu og
undirbúning keppnishesta.
VERKLEGIR TÍMAR
Kennsla mun fara fram í einstaklings- og paratímum auk þess sem þátttakendur fá einkakennslu í reiðhöll
og úti á hringvelli eða skeiðbraut. Í verklegum tímum er áhersla lögð á uppbyggingu og þjálfun knapa og hests fyrir keppni með einstaklingsmiðuðum áherslum. Farið verður í að setja upp prógramm sem hentar hverjum og einum, og er farið í yfirferðaþjálfun og skeiðþjálfun þar sem það á við.
KOSTNAÐUR VIÐ NÁMIÐ
Námið kostar 199.000 kr. Þegar nemandi hefur samþykkt inngöngu í námið ber honum að greiða staðfestingargjald að fjárhæð 99.000 kr. sem er óafturkræft. Staðfestingargjaldið dregst frá heildarverði námskeiðsins. Endurmenntun LBHÍ skiptir eftirstöðvum kr. 100.000 niður á tvo gjalddaga: 1. mars og 1. apríl og er hvor greiðsla kr. 50.000 kr.
Hægt er að óska eftir því að greiða námskeiðsgjaldið að fullu. Athygli er vakin á því að flest stéttarfélög styrkja félagsmenn sína sem sækja nám og námskeið. Greiða þarf námskeiðsgjald að fullu til að fá staðfestingu á að viðkomandi hafi stundað nám í keppnisreiðmennsku á vegum Endurmenntunar LBHÍ.
ATH. Nemandi sem hefur þegið pláss í Reiðmanninum ber að greiða staðfestingargjald kr. 99.000 og er staðfestingargjaldið óafturkræft. Nemandi sem hefur hafið nám í keppnisreiðmennsku
ber að greiða námskeiðsgjaldið að fullu.
KEPPNISNÁM REIÐMANNSINS ER Í BOÐI Á EFTIRTÖLDUM STÖÐUM VOR 2024:
- LBHÍ á Mið-Fossum: Guðmar Þór Pétursson og Fanney Dögg Indriðardóttir reiðkennarar
Verklegar helgar: 27.-28. jan., 17.-18. feb., 23.-24. mars og 26. & 28. apríl.
Verklegir tímar á þriðjudagseftirmiðdögum: 13. feb., 5. mars, 2. apríl og 16. apríl.
- Létti á Akureyri: Erlingur Ingvarsson reiðkennari
Verklegar helgar: 13.-14. jan., 3.-4. feb., 2.-3. mars og 27.-28. apríl.
Verklegir tímar á þriðjudagseftirmiðdögum: 13. feb., 19. mars, 9. apríl og 23. apríl.
- Sleipni á Selfossi: Hanna Rún Ingibergsdóttir og Hjörvar Ágústsson reiðkennarar
Verklegar helgar: 13.-14. jan., 17.-18. feb., 16.-17. mars og 27.-28. apríl.
Verklegir tímar á miðvikudagseftirmiðdögum: 31. jan., 28. feb., 3. apríl og 17. apríl.
- Geysir á Hellu: Hanna Rún Ingibergsdóttir og Hjörvar Ágústsson reiðkennarar
Verklegar helgar: 20.-21. jan., 24.-25. feb., 9.-10. mars og 27.-28. apríl
Verklegir tímar á miðvikudagseftirmiðdögum: 14. feb., 6. mars, 10. apríl og 24. apríl
Innritun - Upphaf náms
Sótt er um námið á rafrænan hátt í gegnum heimasíðu LbhÍ. Óskað er sérstaklega eftir því að fólk tilgreini reynslu sína af hrossum, þátttöku í hrossatengdum námskeiðum og komi aðeins inn á hrossaeignina í athugasemdadálki í umsóknarferlinu.
Umsóknafrestur er til og með 1. desember. Mikilvægt er að hafa í huga að ekki er tekið við umsóknum eftir að umsóknarfrestur er liðinn.
Farið verður farið yfir umsóknirnar að umsóknarfresti loknum og ef þátttakandur uppfylla skilyrði og næg þátttaka er á hverjum stað (12-14 knapar) fá nemendur staðfestingu á netfang sem fylgdi umsókninni. Skilyrði er að þátttakendur hafi góða reynslu af hestamennsku og er m.a. tekið tillit til reynslu umsækjenda og hver hestakostur er. Einnig er tekið tillit til aldursdreifingar og kynjahlutfallss og tekið mið af því hvenær umsóknir berast.
Nánari upplýsingar um námið veitir Randi Holaker verkefnisstjóri Reiðmannsins í síma 844 5546 og/eða með tölvupósti á netfangið randi@lbhi.is
Tryggingar
Nemendur sjá sjálfir um allar tryggingar. Krafa er gerð um að allir nemendur séu tryggðir en hver og einn velur hvort viðkomandi hross sé tryggt. LbhÍ og viðkomandi staðahaldari ber ekki ábyrgð á hrossum nemenda.
Undirbúningskröfur
Nemendur þurfa að hafa áhuga á hestamennsku og eiga eða hafa góðan aðgang að hestum sem henta í námið.
Nemendur þurfa að hafa náð 18 ára aldri.
Gert er ráð fyrir að nemendur hafi nokkra þjálfun í tölvunotkun og séu m.a. kunnugir ritvinnslu- og töflureikniforritum og vanir að nota tölvupóst og vafra.
Góðrar reynslu í reiðmennsku og hestahaldi er krafa og frekari reynsla af iðkun hestamennsku, þjálfun og keppni er kostur.
Kröfur um tölvukost
Til að taka þátt í náminu verður nemandinn að hafa aðgang að tölvu og internetaðgangi. Bóklegur hluti námsins er rafrænn og mikilvægt að nemendur geti verið virkir á námsvef LbhÍ þar sem öll bókleg gögn eru sett inn
Nemandi þarf einnig að hafa aðgang að ritvinnsluforriti og töflureikniforriti t.d. word og excel.
Þá er nauðsynlegt fyrir nemanda að hafa virkt netfang og gott að hafa aðgang að Facebook.
Reiðtygi
- Viðurkenndur reiðhjálmur
- Reiðskór eða reiðstígvél
- Hnakkur með viðurkennd ístöð
- Beisli m/hringamél, stangamél
- Reiðmúlar enskur og þýskur
- Reiðtaumar
- Snúrumúll og kaðall
- Taumhringsgjörð og taumar
- Pískur og hringtaumskeyri
- Hafa aðganga að tamningaaðstöðu, s.s. hringgerði eða öðru afmörkuðu rými til þjálfunar.
- Geta útvegað viðeigandi skeifur og hófhlífar.
Hestakostur
Áhersla er lögð á að nemandi komi með öruggan, spennulausan og vel þjálfaðan hest með hreinar grunngangtegundir og tölt.
Æskilegt er að viðkomandi hafi sama hestinn allt námið en nemendum gefst einnig kostur á að þjálfa fleiri en einn hest til að nýta þá þekkingu og reynslu sem viðkomandi fær í gegnum námið.
LbhÍ hefur rétt til þess að hafna hesti uppfylli hann ekki ofangreindar kröfur.
Umsjónarmaður Reiðmannsins hjá Endurmenntun LBHÍ
Randi Holaker
Verkefnastjóri og reiðkennari
randi@lbhi.is
+354 844 5546
Randi er reiðkennari, tamningamaður og gæðingadómari með áralanga reynslu. Hún er íþróttadómari, knapamerkjadómari og með réttindi til og tekur virkan þátt í að dæma gæðingafimi.
Randi býr á Skáney í Reykholtsdal í Borgarfirði ásamt Hauki Bjarnasyni og tveimur dætrum. Þar reka þau allsherjar hrossaræktarbú í mjög góðri aðstöðu og eru með ræktun, kennslu, þjálfun og sölu.
Randi hefur brennandi áhuga á reiðkennslu og býr yfir mikilli reynslu á því sviði, bæði innanlands og erlendis. Þá hefur hún sinnt kennslu við Landbúnaðarháskóla Íslands.
Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Keldnaholt - 112 Reykjavík
Sími 433-5000
Kt. 411204-3590