Reiðmaðurinn

Almennar upplýsingar um námið

Reiðmaðurinn

Reiðmaðurinn er nám ætlað fróðleiksfúsum hestamönnum og áhugafólki um reiðmennsku sem vill auka við þekkingu sína og færni í reiðmennsku, hrossarækt og almennu hestahaldi. Reiðmaðurinn er tveggja ára nám.

Námskeiðið er byggt upp á námi í reiðmennsku og er megináherslan lögð á það en einnig er þetta almennt nám um m.a. sögu og þróun hestsins, fóðrun hans, frjósemi og kynbætur. Námið er metið til samtals 33 eininga á framhaldsskólastigi (ECVET) og lýkur námskeiðsröðinni með sérstakri viðurkenningu frá Landbúnaðarháskóla Íslands. Slík einingagjöf metur þá heildarvinnu sem ætlast er til að nemendur leggi fram og er háð því að nemendur hafi sótt 90% verklegra tíma í staðarnámi og standist námsmat. Að baki hverrar einingar er gert ráð fyrir 3 heilum vinnudögum nemandans, hvort sem um er að ræða fyrirlestra, verklega tíma eða heimanám. Umsækjendur þurfa að hafa náð 18 ára aldri.

Skipulag námsins

Námskeiðsröðin, Reiðmaðurinn, er byggð upp á svipaðan hátt og önnur námskeið á vegum Endurmenntunar LbhÍ, með markvissum verklegum tímum en við bætist bóklegur hluti í gegnum fjarnámsvef skólans er nefnist Ugla.

Samskipti nemenda og skóla eru í megindráttum um Internetið (veraldarvefinn). Því er mikilvægt að allir séu vel kunnugir slíkum samskiptum.

Verklegir námshlutar eru kenndir á námskeiðum, átta helgar frá september fram í apríl, í tvö ár. Innan verklega hlutans er fyrst og fremst vinna með eigin hest. Unnið er að frá ca. 14:00-20:00 á föstudögum og frá 8:00-17:00 laugardögum og sunnudögum. Mismunandi er hvort unnið er í hópum eða lagt upp með einstaklingstíma, allt eftir viðfangsefninu. Lögð er mikil áhersla á að samnemendur fylgist með og læri af hver öðrum og jafnframt er mikil áhersla lögð á markvissa heimavinnu milli námskeiðshelga.

Mat er lagt á vinnu og framfarir nemandans yfir námstímann. Bóklegi hlutinn er kenndur í fjarnámsformi en auk þess er ein bókleg helgi í staðarnámi á hverri önn þar sem nemendur fá fyrirlestra og sýnikennslur.

Nánara skipulag námsins er kynnt við upphaf hvers áfanga. Ef nauðsynlegt þykir að færa til verklegar helgar, s.s. vegna veðurs eða annarra óviðráðanlegra orsaka, áskilur Endurmenntun LbhÍ sér rétt til þess að gera það, í samráð við verklegan kennara.

Námsmat

Bóklegt. Á hverri önn fyrir sig er nemendum sett fyrir fjögur verkefni úr námsefni annarinnar. Nemendur fá verkefnin sett inn á kennsluvefinn og hafa fyrirfram ákveðinn tíma til að leysa þau og skila inn á kennslusíðu áfangans. Einkunn bóklega hluta hverrar annar samanstendur af meðaleinkunn þessara fjögurra verkefna.

Verklegt. Stöðumat fer fram einu sinni á önn. Fyrirkomulag námsmatsins er breytilegt eftir viðfangsefnum hverrar annar. Á tímabilinu verður eitt samræmt og staðlað próf.

Kröfur um tölvukost

Til að taka þátt í náminu verður nemandinn að hafa aðgang að tölvu með tengingu við Internetið. Nemandi þarf að hafa aðgang að ritvinnsluforriti og töflureikniforriti eins og t.a.m. word og excel. Þá er nauðsynlegt fyrir nemanda að hafa virkt netfang og gott að hafa aðgang að Facebook.

Aðrar kröfur

Tryggingar

Nemendur sjá sjálfir um allar tryggingar. Krafa er gerð um að allir nemendur séu tryggðir en hver og einn velur hvort viðkomandi hross sé tryggt. LbhÍ og viðkomandi staðahaldari ber ekki ábyrgð á hrossum nemenda.

Hestakostur

Áhersla er lögð á að nemandi komi með öruggan, spennulausan og vel þjálfaðan hest með hreinar grunngangtegundir og tölt.

Æskilegt er að viðkomandi hafi sama hestinn allt námið og stundi markvisst heimanám á milli verklegra helga, þ.e. hafi hann á húsi allan námstímann. Æskilegt getur verið að hafa annan hest á húsi og þjálfa samhliða til að nýta enn betur þá þekkingu og reynslu sem viðkomandi fær í gegnum námið.

LbhÍ hefur rétt til þess að hafna hesti uppfylli hann ekki ofangreindar kröfur.

Reiðtygi

 • Viðurkenndur reiðhjálmur
 • Reiðskór eða reiðstígvél
 • Hnakkur með viðurkennd ístöð
 • Beisli m/hringamél, stangamél
 • Reiðmúlar enskur og þýskur
 • Reiðtaumar
 • Snúrumúll og kaðall
 • Taumhringsgjörð og taumar
 • Pískur og hringtaumskeyri
 • Hafa aðganga að helstu járningarverkfærum og tamningaaðstöðu, s.s. hringgerði eða öðru afmörkuðu rými til þjálfunar.
 • Geta útvegað viðeigandi skeifur og hófhlífar.

Undirbúningskröfur

Nemendur þurfa að hafa áhuga á hestamennsku og eiga eða hafa góðan aðgang að hestum sem henta í námið.

Nemendur þurfa að hafa náð 18 ára aldri.

Gert er ráð fyrir að nemendur hafi nokkra þjálfun í tölvunotkun og séu  m.a. kunnugir ritvinnslu- og töflureikniforritum og vanir að nota tölvupóst og vafra.

Grunnreynsla í reiðmennsku og hestahaldi er krafa og frekari reynsla af iðkun hestamennsku,  þjálfun og keppni í er kostur.

Kostnaður við Reiðmanninn 2019-2021

Verð fyrir fullt nám í fjórar annir er 603.000 kr. sem samsvarar 18.000 kr á hverja ECVET einingu í náminu. Þegar nemandi hefur fengið samþykkta inngöngu í námið greiðist staðfestingargjald að upphæð 75.000 kr. sem er óafturkræft. Staðfestingargjaldið dregst frá heildarverðinu.

LbhÍ hefur boðið nemendum að skipta upp greiðslum á því sem eftir stendur af heildarverðinu. Greiðslum er skipt niður á hverja önn og á þrjár jafnar greiðslur, þ.e. 3 x 44.000 á önn. Greiðsludagarnir verða þá í kringum 1.sept, 1. okt, 1. nóv. 1. feb., 1. mar og 1. apr. Hver nemandi skrifar undir greiðslusamkomulag í upphafi annar. Hægt er að semja við gjaldkera LbhÍ um aðrar leiðir ef þess er óskað.

Um leið og nemandi hefur verið samþykktur inn í námið og skrifað undir greiðslusamkomulag þá skuldbindur nemandinn sig til að borga fullt námskeiðsgjaldið óháð því hvort að nemandi þurfi að hætta í náminu eða ákveði að hætta fyrir námslok. Það er því ekki hægt að fá námskeiðsgjald fellt niður þótt nemandi hætti námi áður en námstíma lýkur.

Innifalið í námsskeiðsgjaldinu er aðgangur að náminu, bóklegt fjarnám, reiðtímar og fyrirlestrar. Aðgangur að reiðhöll og aðstöðu henni tengdri á vinnuhelgum.

Hesthúspláss, fóður og undirburður í stíur eru ekki innifalin í verðinu og nemendur sem koma annarsstaðar að á námsstað útvega sér hesthúspláss sjálfir sé þess óskað. Dvalar- og fæðiskostnaður nemenda og hluti námsgagna er ekki innifalinn í verði.

Óski nemandi eftir aukatímum vegna verklegrar þjálfunar umfram tíma í námstöflu þarf viðkomandi að semja sérstaklega við viðkomandi kennara.

Sæki nemandi um að fá að taka endurtökupróf fyrir verklega hlutann er greitt sérstaklega fyrir það 12.000 kr.

Innritun - Upphaf náms

Sótt er um námið á rafrænan hátt í gegnum heimasíðu LbhÍ – www.lbhi.is – á sama hátt og annað nám við Landbúnaðarháskólann. Valið er starfsmenntanám á framhaldsskólastigi – Reiðmaðurinn. Óskað er sérstaklega eftir því að fólk tilgreini reynslu sína af hrossum, þátttöku í hrossatengdum námskeiðum og komi aðeins inn á hrossaeignina í athugasemdadálki í umsóknarferlinu. Umsóknafrestur rennur að jafnaði út um miðjan júní ár hvert.

Eftir að umsóknafrestur rennur út verður farið yfir umsóknirnar og í framhaldi gefin svör í gegnum uppgefið netfang. Ef eftirspurn er umfram þann fjölda sem kemst að (12-14 í hverjum hópi) hefur sú stefna verið mörkuð að fólk sem uppfyllir sett skilyrði, hefur góðan aðgang að hrossum og hefur mikla reynslu af hestamennsku gengur fyrir. Einnig verður þá tekið tillit til aldursdreifingar og kynjahlutfalls, miðað við umsóknir sem berast. 

Nánari upplýsingar um námið veitir Hinrik Þór Sigurðsson verkefnastjóri Reiðmannsins í síma 843 5377 og/eða á netfanginu hinrik@lbhi.is

Umsókn

Opnað verður fyrir umsónir í apríl 2020

Hinrik Þór Sigurðsson

Verkefnastjóri

Veitir nánar upplýsingar um námskeiðaröðina Reiðmannin í síma 843 5377 og/eða á netfanginu hinrik@lbhi.is

Reiðmaðurinn – framhaldsþjálfun

Námskeiðið er sjálfstætt framhald fyrstu tveggja ára Reiðmannsins. Stefnan er að nemandinn öðlist aukna færni í því sem hann hefur áður lært og geti bætt sinn hest á enn markvissari hátt með hjálp æfinga og útsjónarsemi. Nemandinn öðlast meiri færni í markvissri notkun þeirra æfinga sem hafa hvað mest nytsamlegt gildi. Nemendur læra að setja upp þjálfunaráætlun og vinna út frá henni. Kynnt verða fyrir nemendum mismunandi útfærslur af þjálfunarstigum klassískrar reiðmennsku og unnið út frá þeim. Námskeiðið er einstaklingsmiðað og verður kennsla miðuð út frá markmiðum hvers og eins.

Námskeiðið er sjálfstætt framhald fyrstu tveggja ára Reiðmannsins. Stefnan er að nemandinn öðlist aukna færni í því sem hann hefur áður lært og geti bætt sinn hest á enn markvissari hátt með hjálp æfinga og útsjónarsemi. Nemandinn öðlast meiri færni í markvissri notkun þeirra æfinga sem hafa hvað mest nytsamlegt gildi. Nemendur læra að setja upp þjálfunaráætlun og vinna út frá henni. Kynnt verða fyrir nemendum mismunandi útfærslur af þjálfunarstigum klassískrar reiðmennsku og unnið út frá þeim. Námskeiðið er einstaklingsmiðað og verður kennsla miðuð út frá markmiðum hvers og eins.

Námskeiðið nær yfir fimm helgar, frá föstudegi til sunnudags á tímabilinu frá nóvember fram í mars 2020. Á föstudögum er kennt frá ca. kl. 14:00-20:00 og á laugardögum og sunnudögum frá ca. kl. 8:00-17:00

Á fyrstu helgi er gerð ítarleg úttekt á knapa og hesti. Eftir fyrstu helgi setur knapinn upp markmið vetrarins og þjálfunaráætlun út frá henni. Þjálfunaráætlunin er byggð á bóklegu efni um þjálfunarstig og liggur til grundvallar lokaúttektar á knapa og hesti. Kennslan verður einstaklingsmiðuð út frá markmiðum hvers og eins.

Þáttökuskilyrði eru að hafa lokið fyrstu tveimur árum Reiðmannsins eða knapamerki 5.

Kennsla: Gunnar Reynisson aðjúnkt í hestafræðum við LbhÍ.

Tími: 15.-17. nóv, 13.-15. des, 24.-26. jan, 21.-23. feb og 20-22. mars (135 kennslustundir) í húsnæði LbhÍ á Miðfossum.

Verð: 140.000 kr (Innifalið í verði er öll kennsla og aðstaða í reiðhöll. Matur og gisting er ekki innfalin í verði né hesthúsapláss fyrir hest)

Hinrik Þór Sigurðsson

Verkefnastjóri

Veitir nánar upplýsingar um námskeiðaröðina Reiðmannin í síma 843 5377 og/eða á netfanginu hinrik@lbhi.is

Reiðmaðurinn

Grænni skógar I og II

Endurheimt staðargróðurs

Framkvæmdir á áfangastöðum

Innviðir ferðamannastaða

Sauðfjársæðingar

Trjáfellingar og grisjun

Viðhald göngustíga

Aðventuskreytingar

Hvanneyri – 311 Borgarbyggð

Sími 433-5000

Kt. 411204-3590

Share This