Reiðmaðurinn I

Almennar upplýsingar um námið

– Skráningarfrestur er til 10. júní 2023 – 

Reiðmaðurinn er nám ætlað fróðleiksfúsum reiðmönnum og áhugafólki um reiðmennsku sem vill auka við þekkingu sína og færni í reiðmennsku, hrossarækt og almennu hestahaldi en ekki síður fyrir þá reiðmenn sem vilja fara í þá vinnu að eflast sem manneskjur.

Námskeiðið er byggt upp á námi í reiðmennsku og er megináherslan lögð á það en einnig er þetta almennt nám um m.a. sögu og þróun hestsins, fóðrun hans, frjósemi og kynbætur.

Námið er metið til samtals 18 eininga á framhaldsskólastigi (fein) og lýkur námskeiðsröðinni með sérstakri viðurkenningu frá Landbúnaðarháskóla Íslands. Einingagjöfin metur þá heildarvinnu sem ætlast er til að nemendur leggi fram og er háð því að nemendur hafi sótt 90% verklegra tíma í staðarnámi og standist námsmat. Að baki hverrar einingar er gert ráð fyrir 3 vinnudögum nemanda, hvort sem um er að ræða fyrirlestra, verklega tíma eða heimanám. Umsækjendur þurfa að hafa náð 18 ára aldri.

Reiðmaðurinn I

Í Reiðmanninum I sem eru tvær annir öðlast nemendur grunnfærni í slakandi og liðkandi vinnu við þjálfun reiðhestsins. Farið er í ábendingar og samspil þeirra, rík áhersla er lögð á ásetuþjálfun, jafnvægi og samhæfingu ábendinga ásamt því að nemendur fá mikla þjálfun í vinnu við hendi.

Á grunnstigi Reiðmannsins er þjálfun á reiðfærni knapans aðaláhersluatriðið, að knapinn öðlist skilning á atferli og eðli hestsins, átti sig á því hvernig hesturinn lærir og skynjar umhverfi sitt, og að knapinn öðlist kunnáttu og tækni til þess að þjálfa hestinn í grunnþjálfun á gangtegundum.

Rík áhersla er lögð á liðkandi og slakandi vinnu og að nemendur öðlist skilning á mikilvægi þess að hesturinn gangi slakur og spennulaus í allri þjálfun og farið er í að vinna með mikið af liðkandi og styrkjandi æfingum í þjálfun hestsins.

Í bóklega hlutanum er farið ítarlega í fræðin varðandi grunnreiðmennsku, sögu hestsins og reiðmennskunnar á breiðum grunni ásamt því að nemendur öðlast þekkingu á fóðurfræði og heilsufræði.

Eftir Reiðmanninn I á nemandi að hafa öðlast færni í eftirfarandi atriðum:
– Létta og beygja hest við hendi
– Beita hliðarhvatningu við hendi
– Undirbúa opinn sniðgang við hendi
– Framkvæma krossgang við hendi
– Gangskiptingar fet – brokk við taum
– Látið hest ganga krossgang til beggja handa
– Hafa vald á stígandi ásetu
– Ríða baug við taum með háls og höfuð stillt inn í bauginn
– Stækka baug
– Ríða hægra og vinstra stökk, áhersla á gangskiptingarnar
– Undirbúa fyrir tölt og ríða tölt á vinnuhraða, hægja niður á fet og stöðvað
– Vísa hesti niður í taumur gefinn. Að hestur og knapi skilji ábendingu að lengja hálsinn
– Skipuleggja vinnustund með upphitun, vinnukafla og slökun
– Láta hest ganga aftur á bak
– Að ríða við hálshring
– Að nemandi sé undirbúinn undir að ríða opinn sniðgang a.m.k á feti
– Beita hliðarhvatningu á hring (færa afturhluta á hring)
– Hafa kunnáttu og getu til þess að nota stígandi ásetu á brokki

Nánari upplýsingar um skipulag námsins, námsmat, undirbúningskröfur, kostnað og fleira er að finna hér fyrir neðan og mikilvægt að kynna sér þær upplýsingar vel áður en gengið er frá umsókn.

REIÐMAÐURINN I ER Í BOÐI Á EFTIRTÖLDUM STÖÐUM VETURINN 2023-2024

 • Spretti í Kópavogi: Henna J. Sirén reiðkennari –
  22.-24. sept, 20.-22. okt, 10.-12. nóv, 1.-3. des. 
 • Jökli á Flúðum: Inga María S. Jónínudóttir reiðkennari
  22.-24. sept, 27.-29. okt, 10.-12. nov, 8.-10. des. 
 • Þyti á Hvammstanga: Þorsteinn Björnsson reiðkennari
  22.-24. sept, 27.-29. okt, 10.-12. nov, 8.-10. des. 
 • LBHÍ á Mið-Fossum: Bjarki Þór Gunnarsson reiðkennari
  22.-24. sept, 27.-29. okt, 10.-12. nov, 8.-10. des. 
 • Herði í Mosfellsbæ: Steinar Sigurbjörnsson reiðkennari
  22.-24. sept, 13.-15. okt, 10.-12. nov, 8.-10. des. 
 • Sleipni á Selfossi: Árný Oddbjörg Oddsdóttir reiðkennari
  29. sept-1. okt, 27.-29. okt, 17.-19. nóv, 8.-10. des. 

Dagsetningar eru birtar með fyrirvara um breytingar og villur

Skipulag námsins

Námskeiðsröðin, Reiðmaðurinn, er byggð upp á svipaðan hátt og önnur námskeið á vegum Endurmenntunar LbhÍ, með markvissum verklegum tímum en við bætist bóklegur hluti í gegnum fjarnámsvef skólans, Uglu.

Samskipti nemenda og skóla eru í megindráttum í gegnum netið. Því er mikilvægt að allir séu vel kunnugir slíkum samskiptum.

Verklegir námshlutar í hverjum hluta grunnnáms reiðmannsins eru kenndir á námskeiðum, átta helgar frá september fram í apríl, (fjórar vinnuhelgar á hvorri önn).

Innan verklega hlutans er fyrst og fremst vinna með eigin hest. Unnið er að jafnaði frá 14:00-18:00 á föstudögum og frá 8:00-17:00 laugardögum og sunnudögum en tíminn getur verið breytilegur eftir aðstæðum. Mismunandi er hvort unnið er í hópum eða lagt upp með einstaklingstíma, allt eftir viðfangsefninu.

Lögð er mikil áhersla á að samnemendur fylgist með og læri af hver öðrum og jafnframt er mikil áhersla lögð á markvissa heimavinnu milli námskeiðshelga.

Mat er lagt á vinnu og framfarir nemandans yfir námstímann.

Bóklegi hlutinn er kenndur í fjarnámsformi þar sem námsefnið er aðgengilegt á fjarnámsvef skólans og fyrirlestrar og/eða sýnikennslur fara fram á vefnum með reglulegu millibili yfir námstímann.

Ef nauðsynlegt þykir að færa til verklegar helgar, s.s. vegna veðurs eða annarra óviðráðanlegra orsaka, áskilur Endurmenntun LbhÍ sér rétt til þess að gera það, í samráð við verklegan kennara.

Nánara skipulag námsins er kynnt við upphaf hvers áfanga.

Innritun - Upphaf náms

Sótt er um námið á rafrænan hátt í gegnum heimasíðu LbhÍ. Óskað er sérstaklega eftir því að fólk tilgreini reynslu sína af hrossum, þátttöku í hrossatengdum námskeiðum og komi aðeins inn á hrossaeignina í athugasemdadálki í umsóknarferlinu.

Umsóknafrestur er til og með 10. júní. Mikilvægt er að hafa í huga að ekki er tekið við umsóknum eftir að umsóknarfrestur er liðinn.

Farið verður farið yfir umsóknirnar að umsóknarfresti loknum og ef þátttakandur uppfylla skilyrði og næg þátttaka er á hverjum stað (12-14 knapar) fá nemendur staðfestingu á netfang sem fylgdi umsókninni.  Skilyrði er að þátttakendur hafi góðan aðgang að hrossum og þeir sem hafa mikla reynslu af hestamennsku ganga fyrir. Einnig er tekið tillit til aldursdreifingar og kynjahlutfalls, miðað við umsóknir sem berast.

Nánari upplýsingar um námið veitir Randi Holaker verkefnisstjóri Reiðmannsins í síma 844 5546 og/eða með tölvupósti á netfangið randi@lbhi.is

Námsmat

Bóklegt.

Námsefni bóklega hluta reiðmannsins í hverjum áfanga fyrir sig er aðgengilegt á fjarnámsvef skólans Canvas.

Bóklega efnið fylgir í megindráttum verklega hluta námsins en að auki er farið á breiðum grunni í ýmist efni tengt hestahaldi, fóðrun og hirðingu, kynbótum, heilsufræði og fleira.

Á hverri önn fyrir sig er nemendum sett fyrir tvö verkefni úr námsefni annarinnar. Verkefnin eru sett inn á kennsluvefinn og hafa nemendur fyrirfram ákveðinn tíma til að leysa verkefnin og skila inn á kennslusíðu áfangans. Einkunn bóklega hluta hverrar annar samanstendur af meðaleinkunn þessara tveggja verkefna.

Við vekjum athygli á að skila þarf öllum bóklegum verkefnum til að fá útskriftarskírteini í Reiðmanninum. 

Einu sinni til tvisvar á ári er bóklegur dagur haldinn í hestamiðstöð Landbúnaðarháskóla Íslands á Mið-Fossum í Borgarfirði. Dagsetningar og dagskrá eru kynntar í byrjun hvorrar annar.

Verkefnisstjóri Reiðmannsins heldur einnig fundi með nemendum í gegnum fjarfundabúnaðinn Teams 1-2 á hvorri önn, eða eftir þörfum.

Verklegt

Stöðumat fer fram einu sinni á önn. Fyrirkomulag námsmatsins er breytilegt eftir viðfangsefnum hverrar annar. Í lok hverrar annar er samræmt námsmat og staðlað verkefni.

Útskriftardagur

Útskriftardagur Reiðmannsins er haldinn í reiðhöll LbhÍ Mið-Fossum í Borgarfirði í 1. maí ár hvert. 

Undirbúningskröfur

Nemendur þurfa að hafa áhuga á hestamennsku og eiga eða hafa góðan aðgang að hestum sem henta í námið.

Nemendur þurfa að hafa náð 18 ára aldri.

Gert er ráð fyrir að nemendur hafi nokkra þjálfun í tölvunotkun og séu m.a. kunnugir ritvinnslu- og töflureikniforritum og vanir að nota tölvupóst og vafra.

Grunnreynsla í reiðmennsku og hestahaldi er krafa og frekari reynsla af iðkun hestamennsku,  þjálfun og keppni í er kostur.

Kröfur um tölvukost

Til að taka þátt í náminu verður nemandinn að hafa aðgang að tölvu og internetaðgangi. Bóklegur hluti námsins er rafrænn og mikilvægt að nemendur geti verið virkir á námsvef LbhÍ þar sem öll bókleg gögn eru sett inn

Nemandi þarf einnig að hafa aðgang að ritvinnsluforriti og töflureikniforriti t.d. word og excel.

Þá er nauðsynlegt fyrir nemanda að hafa virkt netfang og gott að hafa aðgang að Facebook.

Reiðtygi

 • Viðurkenndur reiðhjálmur
 • Reiðskór eða reiðstígvél
 • Hnakkur með viðurkennd ístöð
 • Beisli m/hringamél, stangamél
 • Reiðmúlar enskur og þýskur
 • Reiðtaumar
 • Snúrumúll og kaðall
 • Taumhringsgjörð og taumar
 • Pískur og hringtaumskeyri
 • Hafa aðganga að tamningaaðstöðu, s.s. hringgerði eða öðru afmörkuðu rými til þjálfunar.
 • Geta útvegað viðeigandi skeifur og hófhlífar.

Hestakostur

Áhersla er lögð á að nemandi komi með öruggan, spennulausan og vel þjálfaðan hest með hreinar grunngangtegundir og tölt.

Æskilegt er að viðkomandi hafi sama hestinn allt námið og stundi markvisst heimanám á milli verklegra helga, þ.e. hafi hann á húsi allan námstímann.

Einnig getur verið kostur að hafa annan hest á húsi og þjálfa samhliða til að nýta enn betur þá þekkingu og reynslu sem viðkomandi fær í gegnum námið.

LbhÍ hefur rétt til þess að hafna hesti uppfylli hann ekki ofangreindar kröfur.

Tryggingar

Nemendur sjá sjálfir um allar tryggingar. Krafa er gerð um að allir nemendur séu tryggðir en hver og einn velur hvort viðkomandi hross sé tryggt. LbhÍ og viðkomandi staðahaldari ber ekki ábyrgð á hrossum nemenda.

Kostnaður við Reiðmanninn I veturinn 2023-2024

Verð fyrir fullt nám í Reiðmanninum I í tvær annir er 380.000 kr. sem samsvarar tæplega 24 þúsund kr. á hverja framhaldsskólaeiningu í náminu.
Námið er samtals 18 framhaldsskólaeiningar (fein).

Þegar nemandi hefur fengið samþykkta inngöngu í námið greiðist staðfestingargjald að fjárhæð 100.000 kr. sem er óafturkræft. Staðfestingargjaldið dregst frá heildarverði námskeiðsins.

Eftirstöðvum er skipt niður á fimm gjalddaga: 1. okt,  1. nóv. 1. des, 1. feb. og 1. mar. Hver greiðsla er 56.000 kr.

Hægt er að staðgreiða námskeiðsgjaldið í upphafi náms. Athygli er vakin á því að flest stéttarfélög styrkja félagsmenn sína sem sækja nám og námskeið og í sumum tilvikum þarf að greiða námskeiðsgjaldið að fullu til að fá fullnaðarendurgreiðslu.

Nemandi sem hefur þegið pláss í Reiðmanninum og greitt staðfestingargjald ber að greiða námskeiðsgjaldið að fullu.

ÁRÍÐANDI

Um leið og nemandi hefur verið samþykktur inn í námið og þegið pláss skuldbindur nemandinn sig til að borga fullt námskeiðsgjaldið óháð því hvort að nemandi þurfi að hætta í náminu eða ákveði að hætta fyrir námslok. Það er því ekki hægt að fá námskeiðsgjald fellt niður þótt nemandi hætti námi áður en námstíma lýkur.

Innifalið í námsskeiðsgjaldinu er kennsla reyndra reiðkennara og sérfræðinga, aðgangur að náminu, bóklegt fjarnám, reiðtímar og fyrirlestrar. Aðgangur að reiðhöll og aðstöðu henni tengdri á vinnuhelgum.

Hesthúspláss, fóður og undirburður í stíur eru ekki innifalin í verðinu og nemendur sem koma annarsstaðar að á námsstað útvega sér hesthúspláss sjálfir sé þess óskað. Dvalar- og fæðiskostnaður nemenda og hluti námsgagna er ekki innifalinn í verði.

Óski nemandi eftir aukatímum vegna verklegrar þjálfunar umfram tíma í námstöflu þarf viðkomandi að semja sérstaklega við viðkomandi kennara.

Sæki nemandi um að fá að taka endurtökupróf fyrir verklega hlutann er greitt sérstaklega fyrir það 15.000 kr.

   

 

Reiðmannshópar fyrr og nú

Reiðmannshópar 2022-2023

 • Kópavogur – Hestamannafélagið Sprettur – reiðkennari Ásta Bjarnadóttir
 • Akranes – Hestamannafélagið Dreyri – reiðkennari Súsanna Sand Ólafsdóttir
 • Egilsstaðir – Hestamannafélagið Freyfaxi – reiðkennari Haukur Bjarnason
 • Sauðárkrókur – Svaðastaðarhöllin – reiðkennari Finnbogi Bjarnason

Reiðmannshópar 2021-2022

 • Kópavogur – Hestamannafélagið Sprettur – reiðkennari er Hjörvar Ágústsson
 • Kópavogur – Hestamannafélagið Sprettur – reiðkennari er Snorri Dal
 • Selfoss – Hestamannafélagið Sleipnir – reiðkennari er Hanna Rún Ingibergsdóttir
 • Akureyri – Hestamannafélagið Léttir – reiðkennari er Reynir Atli Jónsson

Reiðmannshópar 2020-2022

 • Kópavogur – Hestamannafélagið Sprettur – reiðkennari er Haukur Bjarnason
 • Hafnarfjörður – Hestamannafélagið Sörli – reiðkennari er Ásta Björnsdóttir
 • Flúðir hópur 1 – Reiðhöllin á Flúðum – reiðkennari er Þórarinn Ragnarsson
 • Flúðir hópur 2 – Reiðhöllin á Flúðum – reiðkennari er Ragnhildur Haraldsdóttir

Reiðmannshópar 2019-2021

 

 • Kópavogur – Hestamannafélagið Sprettur – reiðkennari er Hanna Rún Ingibergsdóttir
 • Mosfellsbær – Hestamannafélagið Hörður – reiðkennari á fyrsta ár var Ísleifur Jónasson og á seinna ári er reiðkennari Haukur Bjarnason
 • Hella – Hestamannafélagið Geysir – reiðkennari á fyrsta ári var Sigvaldi Lárus Guðmundsson og á seinna ári er reiðkennari Ísleifur Jónasson

Reiðmannshópar 2018-2020

 • Kópavogur 1 – Hestamannafélagið Sprettur – reiðkennari var Hekla Katharina Kristinsdóttir
 • Kópavogur 2 – Hestamannafélagið Sprettur – reiðkennari var Atli Guðmundsson
 • Hafnarfjörður – Hestamannafélagið Sörli – reiðkennari var Hinrik Þór Sigurðarson
 • Selfoss – Hestamannafélagið Sleipnir – reiðkennari var Trausti Þór Guðmundsson

Reiðmannshópar 2017-2019

 • Borgarnes 1 – Faxaborg Borgarnesi – reiðkennari var Ísleifur Jónasson
 • Borgarnes 2 – Faxaborg Borgarnesi – reiðkennari var Ólafur Andri Guðmundsson
 • Mosfellsbær – Hestamannafélagið Hörður – reiðkennari var Hinrik Þór Sigurðsson
 • Krókur í Ásahreppi – reiðkannari var Reynir Örn Pálmason

Reiðmannshópar 2016-2018

 • Kópavogur – Hestamannafélagið Sprettur – reiðkennari var Hinrik Þór Sigurðsson
 • Selfoss – Hestamannafélagið Sleipnir – reiðkannari var Sigvaldi Lárus Guðmundsson

Reiðmannshópar 2015-2017

 • Hafnarfjörður – Hestamannafélagið Sörli – reiðkennari var Halldór Guðjónsson á fyrra ári og á seinna ári var reiðkennari Þórdís Anna Gylfadóttir
 • Flúðir – Hestamannafélagið Smári – reiðkennari var Ísleifur Jónasson
 • Krókur í Ásahreppi – reiðkennari var Reynir Örn Pálmason

Reiðmannshópar 2014-2016

 • Kópavogur – Hestamannafélagið Sprettur – reiðkennari var Heimir Gunnarsson
 • Selfoss – Hestamannafélagið Sleipnir – reiðkennari var Þórdís Erla Gunnarsdóttir

Reiðmannshópar 2013-2015

 • Reykjavík, Víðidalur – Hestamannafélagið Fákur – reiðkennari var Anna Valdimarsdóttir á fyrra ári og á seinna ári var reiðkennari Heimir Gunnarsson
 • Mosfellsbær – Hestamannafélagið Hörður – reiðkennari var Halldór Guðjónsson

Reiðmannshópar 2012-2014

 • Reykjavík, Víðidalur – Hestamannafélagið Fákur – reiðkennari var Halldór Guðjónsson
 • Flúðir – Hestamannafélagið Smári – reiðkennari var Reynir Örn Pálmason
 • Selfoss – Hestamannafélagið Sleipnir – reiðkennari var Þórdís Erla Gunnarsdóttir
 • Miðfossar – reiðkennari var Heimir Gunnarsson
 • Akureyri – Hestamannafélagið Léttir – reiðkennari var Erlingur Ingvason

Reiðmannshópar 2011-2013

 • Reykjavík, Víðidalur – Hestamannafélagið Fákur – reiðkennari var Anna Sigríður Valdimarsdóttir
 • Hella – Hestamannafélagið Geysir – reiðkennari var Reynir Örn Pálmason

Reiðmannshópar 2010-2012

 • Hafnarfjörður – Hestamannafélagið Sörli – reiðkennari var Halldór Guðjónsson
 • Flúðir – Hestamannafélagið Smári – reiðkennari var Ísleifur Jónasson
 • Borgarnes – reiðkennari var Heimir Gunnarsson
 • Akureyri – Hestamannafélagið Léttir – reiðkennari var Erlingur Ingvason
 • Egilsstaðir, Iðavellir – Hestamannafélagið Freyfaxi – reiðkennari var Reynir Örn Pálmason

Reiðmannshópar 2009-2011

 • Dalland, Mosfellsbæ – reiðkennari var Halldór Guðjónsson
 • Hella – Hestamannafélagið Geysir – reiðkennari var Ísleifur Jónasson

Reiðmannshópar 2008-2010

 • Miðfossar, Borgarfirði – hópur 1 – reiðkennari var Reynir Aðalsteinsson
 • Miðfossar, Borgarfirði – hópur 2 – reiðkennari var Reynir Aðalsteinsson
 • Miðfossar, Borgarfirði – hópur 3 – reiðkennari var Reynir Aðalsteinsson
 • Miðfossar, Borgarfirði – hópur 4 – reiðkennari var Reynir Aðalsteinsson

Umsjónarmaður Reiðmannsins hjá Endurmenntun LBHÍ

Randi Holaker

Verkefnastjóri og reiðkennari
randi@lbhi.is
+354 844 5546

Randi er reiðkennari, tamningamaður og gæðingadómari með áralanga reynslu. Hún er íþróttadómari,  knapamerkjadómari og með réttindi til og tekur virkan þátt í að dæma gæðingafimi.

Randi býr á Skáney í Reykholtsdal í Borgarfirði ásamt Hauki Bjarnasyni og tveimur dætrum. Þar reka þau allsherjar hrossaræktarbú í mjög góðri aðstöðu og eru með ræktun, kennslu, þjálfun og sölu.

Randi hefur brennandi áhuga á reiðkennslu og býr yfir mikilli reynslu á því sviði, bæði innanlands og erlendis. Þá hefur hún sinnt kennslu við Landbúnaðarháskóla Íslands.