Nám í Reiðmanninum III er sjálfstætt framhald af Reiðmanninum I og II.
Markmiðið er að nemandinn öðlist aukna færni í því sem hann hefur áður lært og geti bætt sinn hest á enn markvissari hátt með hjálp æfinga og útsjónarsemi.
Nemandinn öðlast meiri færni í markvissri notkun þeirra æfinga sem hafa hvað mest nytsamlegt gildi. Nemendur læra að setja upp þjálfunaráætlun og vinna út frá henni. Kynnt verða fyrir nemendum mismunandi útfærslur af þjálfunarstigum klassískrar reiðmennsku og unnið út frá þeim. Námskeiðið er einstaklingsmiðað og verður kennsla miðuð út frá markmiðum hvers og eins.
Námið er metið til 9 eininga á framhaldsskólastigi (fein). Einingagjöfin metur þá heildarvinnu sem ætlast er til að nemendur leggi fram og er háð því að nemendur hafi sótt 90% verklegra tíma í staðarnámi og standist námsmat. Að baki hverrar einingar er gert ráð fyrir 3 vinnudögum nemanda, hvort sem um er að ræða fyrirlestra, verklega tíma eða heimanám. Umsækjendur þurfa að hafa náð 18 ára aldri.
Námskeiðið nær yfir fjórar helgar, frá föstudegi til sunnudags og eru verklegu helgarnar kenndar frá ca. miðjum september fram í miðjan desember. Á föstudögum er kennt frá ca. kl. 14:00-18:00 og á laugardögum og sunnudögum frá ca. kl. 8:00-17:00.
Á fyrstu helgi er gerð ítarleg úttekt á knapa og hesti. Eftir fyrstu helgi setur knapinn upp markmið annarinnar og þjálfunaráætlun út frá henni.
Þjálfunaráætlunin er byggð á bóklegu efni um þjálfunarstig og liggur til grundvallar lokaúttektar á knapa og hesti. Kennslan verður einstaklingsmiðuð út frá markmiðum hvers og eins.
Verð: 200.000 kr.
Hægt er að óska eftir því að greiða námskeiðsgjaldið í einni greiðslu í upphafi náms. Athygli er vakin á því að flest stéttarfélög styrkja félagsmenn sína sem sækja nám og námskeið og í sumum tilvikum þarf að greiða námskeiðsgjaldið að fullu til að fá fullnaðarendurgreiðslu.
Umsókn
REIÐMAÐURINN III ER Í BOÐI Á EFTIRTÖLDUM STÖÐUM VETURINN 2023-2024
- Spretti í Kópavogi: Hjörvar Ágústsson reiðkennari
29. sept-1. okt, 27.-29. okt, 17.-19. nóv, 8.-10. des. - Sleipni á Selfossi: Hanna Rún Ingibergsdóttir reiðkennari
22.-24. sept, 20.-22 okt, 24.-26. nóv, 15.-17. des. - Létti á Akureyri: Erlingur Ingvarsson reiðkennari
29. sept-1. okt, 20.-22. okt, 10.-12. nóv, 1.-3. des. - Vesturkoti: Þórarinn Ragnarsson reiðkennari
22-24. sept, 20.-22. okt, 17.-19. nóv, 15.-17. des.
Dagsetningar eru birtar með fyrirvara um breytingar og villur
Randi Holaker
Verkefnisstjóri og reiðkennari
randi@lbhi.is
+354 844 5546
Randi er reiðkennari, tamningamaður og gæðingadómari með áralanga reynslu. Hún er íþróttadómari, knapamerkjadómari og með réttindi til og tekur virkan þátt í að dæma gæðingafimi.
Randi býr á Skáney í Reykholtsdal í Borgarfirði ásamt Hauki Bjarnasyni og tveimur dætrum. Þar reka þau allsherjar hrossaræktarbú í mjög góðri aðstöðu og eru með ræktun, kennslu, þjálfun og sölu.
Randi hefur brennandi áhuga á reiðkennslu og býr yfir mikilli reynslu á því sviði, bæði innanlands og erlendis. Þá hefur hún sinnt kennslu við Landbúnaðarháskóla Íslands.

- Haldið í samstarfi við Smalahundafélag Íslands og Bændasamtök Íslands -
Mikill áhugi hefur verið á fjárhundanámskeiðum sem Endurmenntun LBHÍ hefur haldið í samstarfi við Smalahundafélag Íslands og Bændasamtök Íslands, og hafa færri komist að en vilja.
Næsta námskeið verður haldið í reiðhöll LBHÍ á Mið-Fossum í Borgarfirði og eru tvö, tveggja daga námskeið í boði:
- Fyrra námskeiðið er lau. 24. feb. og sun. 25. feb. kl. 9-17: Með eða án hunds
- Seinna námskeiðið er mán. 26. feb. og þri. 27. feb. kl. 9-17: Með eða án hunds
Hámarksfjöldi á hverju námskeiði eru 12 nemendur,
8 til 9 nemendur með hundi og 5 nemendur án hunds.
Í ljósi sögunnar og þróunar búsetu um hinar dreifðu sveitir landsins blasir við að fólki til sveita fækkar og smalamennska verður erfiðari af þeim sökum. Því hafa góðir smalar með vel þjálfaða hunda aldrei verið mikilvægari en einmitt nú. Námskeið þetta er því góð viðleitni við að undirbúa menn fyrir þessa breyttu tíma og auka sérhæfingu á þessu sviði.
Kennari á námskeiðinu er Jo Agnar Hansen sauðfjárbóndi sem kemur frá Noregi. Hann er búinn að vera með smalahund frá árinu 1987 og er talinn einn af fjórum fremstu fjárhundatamningamönnum Noregs.
Jo Agnar hefur verið í norska landsliðinu frá 2006 og er formaður Hedmark Gjeterhundlag sem er deild innan norsku sauðfjár- og geitfjársamtaka Noregs.
Um er að ræða námskeið þar sem vönduð vinnubrögð og fagmennska eru í hávegum höfð. Á námskeiðinu mun Paddy Fanning kenna aðferðafræðina við að temja fjárhunda. Uppbygging námskeiðsins er 80% verkleg þjálfun sem fram fer í reiðhöllinni og úti við ef aðstæður leyfa. Þá er 20% bókleg kennsla eftir því sem þörf krefur.
Hundar verða að vera byrjaðir í tamningu með kindum og kunna að hlýða frumskipunum til að námskeiðið nýtist.
Í boði er að sitja námskeiðið án hunds gegn vægara gjaldi!
Kennari: Jo Agnar Hansen sauðfjárbóndi og fjárhundatemjari frá Noregi
Staður: Reiðhöllinni á Mið-Fossum í Borgarfirði
Tími: Fyrra námskeiðið er lau. 24. feb. og sun. 25. feb. kl. 9-17: Með eða án hunds
Seinna námskeiðið er mán. 26. feb. og þri. 27. feb. kl. 9-17: Með eða án hunds
Verð með hundi: 60.000 kr. - innifalið í verði er kennsla, hádegisverður og kaffi
Verð án hunds: 30.000 kr. - innifalið í verði er að horfa á kennsluna, hádegisverður og kaffi
Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Keldnaholt - 112 Reykjavík
Sími 433-5000
Kt. 411204-3590
