Borgarvistfræði / Urban Ecology

– 6 ECTS eininga nám á framhaldsskólastigi – 

Umsókn

Borgarvistfræði er námskeið sem gefur nemendum innsýn í áhrif þéttbýlismyndunar og annarrar algengrar
land­nýtingar á vistkerfi og umhverfi og tengingu þeirra við helstu umhverfismál samtímans.

Kynntar verða til sögunnar ýmsar vistfræðilegar og vistverkfræðilegar lausnir til að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum þéttbýlismyndunar. Fjallað verður um þætti eins og vistspor þéttbýlis og möguleika þess til að veita margvíslega vistkerfaþjónustu og rætt um sérstöðu íslenskrar náttúru og því velt upp hvort og hvernig hægt sé að gera þéttbýlið „náttúrulegra“.

Einnig verða skoðuð áhrif innviðamannvirkja (vegir, virkjanir, línur, o.s.frv.) á vistkerfi og hvað gert sé til að draga úr þeim, auk þess sem rædd verða áhrif mismunandi landnýtingar á vistkerfi og umhverfi. Að lokum verður fjallað um alþjóðlega og innlenda stefnumótun á sviði umhverfismála og skoðað hvernig hún getur tengst skipulagsmálum.

Námskeiðið hentar mjög vel öllum sem starfa við skipulag og umhverfismat, arkitektúr og hönnun, sjálfbærni og vistfræði eða hafa snertiflöt við skipulags- og umhverfismál. 

Þeir sem sækja þetta námskeið hjá Endurmenntun LBHÍ sækja sama námskeið og nemendur sem skráðir eru í
MS námi í skipulagsfræði við Landbúnaðarháskóla Íslands. Nemandi sem uppfyllir öll skilyrði til próftöku verður gefinn kostur á að fá vottað einingamat í lok námskeiðs. Námskeiði er metið til 6 ECTS eininga á meistarastigi.

Kennt er að mest í fjarkennslu á Teams á föstudagsmorgnum og hefst kennsla föstudaginn 20. október og lýkur í föstudaginn 1. desember (7 vikur). Tvær staðarlotur eru staðfestar, sú fyrri þann 20. október og seinni er föstudaginn 17. nóvember.  

Kennarar: Ása L. Aradóttir prófessor við LBHÍ, Ólafur Gestur Arnalds prófessor við LBHÍ og Snorri Sigurðsson sviðsstjóri náttúruverndar hjá NÍ.

Kennsla: Að mestu í fjarkennslu á Teams. Tvær staðarlotur eru staðfestar, fös. 20. október og fös. 17. nóvember.

Tími: 20. okt. – 1. des. Stundaskrá verður kynnt þegar nær dregur (sjá stundaskrá hér fyrir neðan)

Verð: 64.000 kr.

– Athygli er vakin á að flest stéttarfélög styrkja félagsmenn sína til að sækja nám og námskeið – 

Endurmenntun LbhÍ

Landbúnaðarháskóli Íslands býr yfir sterkum og góðum tengslum við atvinnulífið og landsbyggðina sem er jafnframt grunnur að góðri og öflugri endurmenntunardeild við skólann. Endurmenntun LbhÍ þjónar því flestum starfandi einstaklingum á sviði umhverfistengdra málefna í þjóðfélaginu.