Göngu- og hjólavænt borgarumhverfi - 4 ECTS

Almennar upplýsingar um námið

Námskeiðið fjallar um skipulag göngu- og hjólavæns borgarumhverfis, með áherslu á aðstæður í litlum og meðalstórum borgum á norðlægum slóðum. Í upphafi námskeiðsins er fjallað almennt um samgöngur og borgarskipulag og hvernig byggt umhverfi hefur áhrif á val ferðamáta og venjur. Megin áhersla námskeiðsins liggur í að skoða annars vegar notendarsjónarmið gangandi og hjólandi vegfarenda og hins vegar aðferðir skipulagsfræðinnar við að greina og meta gæði borgarumhverfis fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur.

Að loknu námskeiði geta nemendur tekið til notkunar viðeigandi greiningaraðferðir við að meta að hvað marki umhverfið telst hjóla- og/eða gönguvænt og geta sýnt fram á og byggt mat á gæðastigi þess á stöðu þekkingar á viðeigandi sviði.

Námskeiðið fer fram í formi fyrirlestra og umræðu um námsefnið, m.a. um ýmsar greinar tengt stöðu þekkingar á sviðinu. Áhersla er lögð á að nemendur kynnist viðeigandi vísindagreinum til að byggja á mat sitt og rökstuðning fyrir gæðum valins tilviks. Farnar verða tvær vettvangsferðir á höfuðborgarsvæðinu. Önnur ferðin verður farin á hjóli með notendasjónarmið í huga og hin gangandi þar sem kynnt er aðferð við að meta gönguvæni í raunverulegu umhverfi.

Verkefni: Nemendur koma með tilvik; skilgreina afmarkað svæði í byggðu umhverfi, vinna með rýni á stefnumörkun, skipulagsáætlun sveitarfélags eða sambærilegu. Nemendur skila ritgerð í lok námskeiðsins (um 3000-3500 orð) með greiningu á göngu- og eða hjólavæni tilviksins byggt á stöðu þekkingar á sviðinu. Námsmat byggir á faglegri og akademískri hæfni nemandans til að vinna með efnið og byggja greiningu sína á núverandi þekkingarstigi á sviðinu

Sérstakar kröfur til þátttöku: Nemendur þurfa að geta lesið ensku og norðurlandamál og geta unnið kortavinnu/uppdrætti eða sambærilegt með tölvustuddri hönnun

Þeir nemendur sem sækja þetta námskeið hjá Endurmenntun LbhÍ sækja sama námskeið og þeir nemendur sem skráðir eru í nám við Landbúnaðarháskóla Íslands. Nemandi sem uppfyllir öll skilyrði til próftöku verður gefinn kostur á að fá vottað einingamat í lok námskeiðs. Námskeiðið er á meistara stigi og má meta til 4 ECTS eininga.

Kennsla: Harpa Stefánsdóttir, arkitekt og dósent í skipulagsfræðum við Norges miljø- og biovitenskapelige universitet (NMBU).

Tími: Fim. 14. okt, kl. 13:00-15:55, fös. 15. okt, kl. 9:00-15:55, lau. 30. okt, kl. 9:00-15:55 og fös. 12. nóv, kl. 9:00-12:00 hjá LbhÍ á Keldnaholti í Reykjavík (stundataflan er birt með fyrirvara um breytingar)

Verð: 74.000 kr

Harpa lauk námi við Arkitektaháskólann í Osló árið 1993 og doktorsgráðu í skipulagsfræði við Norwegian University of Life Sciences (NMBU) árið 2014 þar sem hún starfar sem dósent við skipulagsfræðideildina. Harpa hefur unnið við ýmis viðamikil rannsóknarverkefni sem hafa verið í fararbroddi um hjólreiðar, gönguvæni og ferðavenjur á Íslandi, Noregi og í Danmörku. Auk doktorsritgerðar hennar um hjóleiðasamgöngur má nefna WALKMORE | NMBU og Where and how should we build our homes? – Residential location, activity participation and travel behavior (RESACTRA) | NMBU ásamt rannsókn á höfuðborgarsvæðinu um búsetustaðsetningu, virkni og ferðavenjur. Eftir hana liggja fjöldi vísindagreina á sviðinu ásamt samstarfsmönnum. Nánari upplýsingar um Hörpu er að finna hér ásamt upplýsingum um birtar greinar inn á Cristin.

Umsókn

Endurmenntun LbhÍ

Landbúnaðarháskóli Íslands býr yfir sterkum og góðum tengslum við atvinnulífið og landsbyggðina sem er jafnframt grunnur að góðri og öflugri endurmenntunardeild við skólann. Endurmenntun LbhÍ þjónar því flestum starfandi einstaklingum á sviði umhverfistengdra málefna í þjóðfélaginu.