Mengun - uppsprettur og áhrif

– 6 ECTS eininga námskeið – 

Námskeiðið skiptist í tvo hluta þar sem annars vegar er fjallað um undirstöðuatriði og meginstefnur í meðhöndlun úrgangs og hins vegar um vatnsöflun og vatnsmengun, þar með talið samspil líffræðilegs umhverfis og mengunar.

Hluti 1 – Meðhöndlun úrgangs
Fjallað verður um undirstöðuatriði og meginstefnur í meðhöndlun úrgangs, bæði erlendis og á Íslandi. Farið er yfir grunnatriði í meðhöndlun úrgangs og fjallað um þróun í meðhöndlun úrgangs, lög og reglugerðir, skilgreiningar og hugtök, mismunandi leiðir og útfærslur til meðhöndlunar úrgangs sem og umhverfis- og samfélagsáhrif.

Lögð er áhersla á heildræna nálgun í meðhöndlun úrgangs og lagðar verða tengingar við aðila sem koma að málum. Fjallað verður um samvinnu í efnis- og vörukeðjum með því að markmiði að loka efnahringrás og koma þannig í veg fyrir að úrgangur myndist yfir höfuð.

Farið verður inn í tengsl úrgangs- og orkumála, s.s. orkusparnaður sem getur orðið við hágæða endurvinnslu úrgangs í hringrásarhagkerfi. Áhersla er einnig lögð á verkefnavinnu bæði einstaklingsverkefni og hópverkefni – framsetningu og kynningu, rökræna hugsun og aðferðafræði við lausn verkefna. Farið verður í skoðunarferð til móttökustöðvar fyrir úrgang, ef aðstæður leyfa.

Hluti 2: Vatnsöflun og vatnsmengun
Í þessum hluta er fjallað um samspil líffræðilegs umhverfis og mengunar. Yfirlit verður gefið yfir gildandi lög og reglugerðir sem varða varnir gegn vatnsmengun.

Eftirfarandi atriði koma m.a. við sögu:
• Efnaferlar í náttúrunni – helstu mengunarefni hér á landi og uppsprettur þeirra.
• Áburðarefni, lífræn efni, gerlar, þungmálmar og þrávirk efni.
• Ástand mála hvað varðar mengun hér á landi borið saman við önnur lönd í Evrópu og víðar
• Umhverfi og heilsa
• Vatn – vatnsgæði – vatnsnotkun og vatnsöflun – litlar vatnsveitur.
• Fráveitur og skólp. Skólphreinsun í þéttbýli og dreifbýli. Ástand skólpmála.
• Fráveita á ofanvatni. Blágrænar lausnir. 

Námskeiðið er 10 vikna langt og kennt í fjarnámi. 

Námsmat byggir á framlögðum verkefnum (engin próf).

Nemendur sem sækja þetta námskeið hjá Endurmenntun LBHÍ sækja sama námskeið og nemendur sem skráðir eru í nám í landslagsarkitektúr og skipulagsfræði við Landbúnaðarháskóla Íslands. Nemandi sem uppfyllir öll skilyrði til próftöku verður gefinn kostur á að fá vottað einingamat í lok námskeiðs.

Námskeiðið má meta til 6 ECTS eininga. Stundaskrá og nánari upplýsingar má nálgast hér:
UGLA – Kennsluskrá 2023-2024 > 05.69.03 MENGUN – UPPSPRETTUR OG ÁHRIF (lbhi.is)

Kennsla: Cornelis Aart Meijles umhverfisverkfræðingur 

Tími: Kennsla hefst um miðjan september og lýkur í kringum mánaðarmótin nóv/des (fyrri og seinni haustönn).

Staður: Kennt í fjarkennslu 

Verð:  

– Við vekjum athygli á að hægt er að um sækja styrk hjá stéttarfélögum fyrir námskeiði eða námi –

Endurmenntun LbhÍ

Landbúnaðarháskóli Íslands býr yfir sterkum og góðum tengslum við atvinnulífið og landsbyggðina sem er jafnframt grunnur að góðri og öflugri endurmenntunardeild við skólann. Endurmenntun LbhÍ þjónar því flestum starfandi einstaklingum á sviði umhverfistengdra málefna í þjóðfélaginu.