Sjálfbær þróun

– 4 ECTS – 

Námskeiðið er hugsað fyrir nemendur sem eru með nokkurn skilning á grunnhugtökum í vistfræði og hagfræði.

Á námskeiðinu er farið yfir skilgreiningar á sjálfbærri þróun og hvernig hugmyndir um sjálfbæra þróun hafa fengið sess í stefnumörkun og aðgerðum á alþjóðlegum vettvangi og á Íslandi. Skoðað er hvernig ákvarðanir sem teknar eru á einum stað á einum tíma geta haft afleiðingar eða áhrif á öðrum stað og tímapunkti.

Þá er sjónum beint að aðferðum í ákvarðanatöku sem eru í anda sjálfbærrar þróunar og skoðaðar leiðir sem hvetja til samráðs og virkrar þátttöku samfélagsþegna. Einstök dæmi verða notuð til að skýra hvernig sjálfbær þróun getur snert nær alla þætti samfélagsins.

Kennari er Ragnhildur Helga Jónsdóttir. Ragnhildur er með meistaragráðu í umhverfisfræðum og hefur langa reynslu af kennslu á sviði sjálfbærrar þróunar og umhverfisfræða. Hún hefur unnið við ráðgjöf til fyrirtækja og sveitarfélaga í umhverfismálum og Staðardagskrár 21, þar sem tengdir eru saman ólíkir hagsmunahópar og mismunandi sjónarmið, til að stuðla að sjálfbærri þróun samfélaga til framtíðar. Í kennslu sinni leitast hún við að fá nemendur til að horfa á daglegt líf með gagnrýnum huga og greina hvernig megi breyta til betri vegar.

Nemendur sem sækja þetta námskeið hjá Endurmenntun LBHÍ sækja sama námskeið og nemendur sem skráðir eru í nám við Landbúnaðarháskóla Íslands. Nemandi sem uppfyllir öll skilyrði til próftöku er gefinn kostur á að fá vottað einingamat í lok námskeiðs.
Námskeiðið er metið til 4 ECTS eininga á BS stigi.

Kennsla: Ragnhildur Helga Jónsdóttir aðjúkt við LbhÍ

Staður: Kennt í fjarkennslu að mestu leyti. Skyldumæting tvo hálfa daga.

Tími: Fyrri vorönn (janúar-febrúar). Stundaskrá verður kynnt um leið og hún liggur fyrir.

Kennslutímabil er 7 vikur 

Verð: 49.000 kr

Umsókn

Endurmenntun LbhÍ

Landbúnaðarháskóli Íslands býr yfir sterkum og góðum tengslum við atvinnulífið og landsbyggðina sem er jafnframt grunnur að góðri og öflugri endurmenntunardeild við skólann. Endurmenntun LbhÍ þjónar því flestum starfandi einstaklingum á sviði umhverfistengdra málefna í þjóðfélaginu.