Sokkaprjón fyrir byrjendur

Almennar upplýsingar um námið

Þriggja skipta byrjendanámskeið í sokkaprjóni þar sem farið er yfir helstu grundvallaratriði í prjóni, nemendur læra töfralykkjuaðferðina (Magic loop) við að prjóna sokka og að fara eftir uppskrift á ensku.  Þannig að hér má því slá þrjár flugur í einu höggi.

Á námskeiðinu læra þátttakendur grunnaðferðir í prjóni með því að prjóna sokka.  Fitja upp og fella af, slétt og brugðið, útaukningar, að prjóna upp lykkjur, gera hæl og tá og sauma saman lykkjur á tá með svokallaðri kitchener stitch aðferð.  Þátttakendur fá skýra kennslu og aðstoð alveg frá því að fitjað er upp þar til sokkur/sokkapar er tilbúið.

Nemendur koma með garn og prjóna og fá nánari upplýsingar varðandi það eftir að þeir eru búnir að skrá sig á námskeiðið.  Á námskeiðinu er farið stuttlega yfir mismunandi gerðir og grófleika af garni og hvað hentar vel og hvað hentar síður fyrir sokkaprjón.

Prjónað er eftir uppskrift á ensku þannig að nemendur læra einnig að lesa og nota slíkar uppskriftir. Nemendur fá orðalista með þýðingum úr ensku yfir á íslensku með helstu hugtökum og aðferðum sér til halds og trausts.  Miðað er við að nemendur geti í framhaldinu nýtt sér þær fjölmörgu sokkauppskriftir (og aðrar) sem hægt er að nálgast á veraldarvefnum.

Nemendur læra að nota töfralykkjuaðferð (Magic loop) sem er m.a. notuð við sokkaprjón en einnig við margt annað eins og að prjóna ermar. En þá er stykki prjónað í hring á einn langan hringprjón (amk. 80 cm) í staðinn fyrir að prjóna það með því að nota 4 – 5 tvíodda prjóna (sokkaprjóna).  En það má vel nota þá aðferð ef nemendur kjósa heldur.

Miðað er við að hver og einn geti unnið á sínum hraða en þó er miðað við að ákveðnum hluta sokks sé lokið fyrir tíma 2 og 3 svo nemendur geti nýtt sér kennsluna til fulls. Þeir sem vilja nýta tímann vel á milli skipta geta gert báða sokkana samhliða á sitt hvora prjónana og þannig verið búnir að ljúka hluta 1 á báðum sokkum fyrir tíma 2 og svo framvegis.

Boðið er upp á kaffi og meðlæti og er markmiðið að eiga notalegar og lærdómsríkar stundir saman yfir prjónunum.

Í lok námskeiðs er nemandi kominn með fullkláraðan sokk eða sokkapar og ætti að geta bjargað sér sjálfur með það næsta.  Einnig ætti hann að kunna að nota töfralykkjuaðferðina ef hann vill og að fara eftir einfaldari uppskriftum á ensku.

Það er ekki amalegt að eiga hlýja og notalega sokka til að smeygja sér í og svo eru heimaprjónaðir sokkar tilvaldar gjafir handa þeim sem manni þykir vænt um.

Hámarks fjöldi þátttakenda: 8

Leiðbeinandi: Guðrún Dröfn Ragnarsdóttir grunnskólakennari.  Hún er mikil áhugamanneskja um handavinnu og hefur prjónað og saumað um árabil og m.a. kennt textílmennt í grunnskóla. @ragnarsdottir á instagram

Tími 11., 18. og 25. mars kl. 17-19

Heildarlengd námskeiðs: 6 klst.

Staður: Hjá Landbúnaðarháskóla Íslands á Keldnaholti í Reykjavík

Verð: 17.500 kr. (Kennsla og kaffiveitingar innifalið í verði)

Hagnýtar upplýsingar: Flest stéttarfélög styrkja félagsmenn sína til að sækja námskeið eða nám.

Umsókn

Endurmenntun LbhÍ

Landbúnaðarháskóli Íslands býr yfir sterkum og góðum tengslum við atvinnulífið og landsbyggðina sem er jafnframt grunnur að góðri og öflugri endurmenntunardeild við skólann. Endurmenntun LbhÍ þjónar því flestum starfandi einstaklingum á sviði umhverfistengdra málefna í þjóðfélaginu.