Vatnavistfræði

– Metið til 6 ECTS eininga – 

Umsókn

Megináhersla námskeiðsins er að draga fram hvað einkennir mismunandi gerðir ferskvatnsvistkerfa og lífverusamfélög, hvað mótar vistkerfi ferskvatns og fara yfir nýtingu og umgengni um ferskvatnsvistkerfi. Áhersla er lögð á fræðilegar og hagnýtar nálganir..

Í byrjun er farið í gegnum grunnhugtök vistfræðilegra nálgana og tengsl þeirra við þekkingu okkar á vistfræði ferskvatns. Rætt er um mismunandi kvarða í rannsóknum í vistfræði vatn og farið yfir grunnatriði er varða efna- og eðlisfræði og hvernig þeir þættir móta vistkerfi vatna og áa. Farið verður í orkuflæði, næringarefnahringrásir og aðlögun lífvera að lifi í vatni.

Megingerðum ferskvatnsvistkerfa er gerð skil, hvað einkennir þau, flokkun þeirra og virkni. Gerð verður grein fyrir meginatriðum í mótun vistkerfa straumvatna, stöðuvatna og votlendis, og stofnum og samfélögum í vötnum, fæðuvefjum, nýtingu og röskun vatnavistkerfa.

Á námskeiðinu er einnig fjallað um íslensk ferskvatnsvistkerfi þar sem það á við og efniviður gefur tilefni til auk þess sem erlend dæmi verða notuð til skýringa. Farin verður vettvangsferð um Borgarfjörð þar sem ár og vötn verða könnuð með tilliti til rennslishátta, dýpis og gróðurfars, mögulegra álagsþátta o.s.frv. Tekin verða sýni og einfaldar mælingar gerðar. Nemendur munu skipta sér í þriggja til fimm manna hópa, vinna úr þeim gögnum sem safnast og skrifa skýrslu. Þá verða tveir umræðufundir þar sem skipulega verður rætt um efni sem kennarar leggja fyrir.

Námskeiðið er að mestu í fjarkennslu, og gert ráð fyrir 2 staðarlotum. Námskeiðið er 7 vikna langt og kennsla hefst formlega 21. ágúst. Stundaskrá og nánari upplýsingar: 
UGLA – Kennsluskrá 2023-2024 > 05.74.03 VATNAVISTFRÆÐI (lbhi.is)

Nemendur sem sækja þetta námskeið hjá Endurmenntun LBHÍ sækja sama námskeið og nemendur sem skráðir eru í BS nám við Landbúnaðarháskóla Íslands. Nemandi sem uppfyllir öll skilyrði til próftöku verður gefinn kostur á að fá vottað einingamat í lok námskeiðs. Námskeiði er metið til 6 ECTS eininga.

Kennari: Skúli Skúlason prófessor og fv. rektor við Háskólann á Hólum

Staður: Í fjarkennslu með 2 staðarlotum/vettvangsferðum

Tími: Kennsla hefst formlega 21. ágúst og lýkur 06. október (7 vikna námslota)

Verð: 54.000 kr.

– Við vekjum athygli á að flest stéttarfélög styrkja félagsmenn sína til að sækja nám og námskeið –

STUNDASKRÁ BIRT SÍÐAR

Endurmenntun LbhÍ

Landbúnaðarháskóli Íslands býr yfir sterkum og góðum tengslum við atvinnulífið og landsbyggðina sem er jafnframt grunnur að góðri og öflugri endurmenntunardeild við skólann. Endurmenntun LbhÍ þjónar því flestum starfandi einstaklingum á sviði umhverfistengdra málefna í þjóðfélaginu.