Heilbrigður jarðvegur, betri uppskera

 – Námskeiðið er haldið í samstarfi við Sölufélag garðyrkjumanna, Bændasamtök Íslands og HortiAdvice – 

Markmið námskeiðsins er að auka þekkingu um mikilvægi þess að stuðla að heilbrigðum jarðvegi til að stuðla að sem best mögulegri uppskeru.

Þátttakendur munu öðlast aukna þekkingu á mikilvægi þess að taka reglulega jarðvegssýni og hvernig á að taka jarðvegssýni, til að öðlast upplýsingar um stöðu næringarefna, sýrustigs og sjúkdóma í jarðveginum.

Farið verður yfir áhrif rakastigs, næringarefna og sýrustigs í jarðvegi á heilbrigði plantna og uppskeru og þá sérstaklega hvað varðar útiræktun grænmetis.

Eins verður farið yfir þær nýjungar sem eru að finna á markaðinum hvað varðar mælingu næringarefna og raka í jarðvegi, og mælingu á næringarefnum í plöntum.

Kennari á námskeiðinu er Fríða Helgadóttir garðyrkjuráðunautur hjá fyrirtækinu HortiAdvice í Danmörku. Fríða er með meistaragráðu í landbúnaði frá Kaupmannahafnarháskóla og BS gráðu frá sama skóla. Fríða hefur starfað hjá HortiAdvice frá 2018 auk þess sem hún hefur verið eini starfandi garðyrkjuráðunauturinn á vegum Sölufélags garðyrkjubænda (SFG) og verið í góðu samstarfi við íslenska garðyrkjubændur um árabil.

HortiAdvice er einkarekið fyrirtæki sem starfar við ráðgjöf, rannsóknir og þróun í garðyrkju og veitir m.a. ráðgjöf varðandi útiræktun á grænmeti og ávöxtum og ylræktun á grænmeti, blómum og pottaplöntum.

Tími: Námskeið væntanlega haldið næst haust 2024

Staður: Hjá Landbúnaðarháskóla Íslands á Keldnaholti í Reykjavík

– Athygli er vakin á að flest stéttarfélög styrkja félagsmenn sína til að sækja nám og námskeið 

Endurmenntun LbhÍ

Landbúnaðarháskóli Íslands býr yfir sterkum og góðum tengslum við atvinnulífið og landsbyggðina sem er jafnframt grunnur að góðri og öflugri endurmenntunardeild við skólann. Endurmenntun LbhÍ þjónar því flestum starfandi einstaklingum á sviði umhverfistengdra málefna í þjóðfélaginu.